Fréttir23 ágú 2022

Akurey AK í slipp

Þátttöku ísfisktogarans Akureyjar AK í fiskveiðum á þessu kvótaári er nú lokið. Skipið kom til hafnar í Reykjavík í gærmorgun og fer það í slipp að aflokinni löndun.


Að sögn Eiríks Jónssonar, skipstjóra, var veiðiferðin nokkuð stutt að þessu sinni. Var aflinn í samræmi við það eða rétt um 60 tonn.


,,Þegar við fórum út var komið slæmt veður á Vestfjarðamiðum og því var ekki um annað að ræða en að halda sig fyrir sunnan.


,,Við hófum veiðar á Fjöllunum í von um að fá ufsa. Það var því miður ekki mikið um hann. Það kom í sjálfu sér ekki á óvart því það var smæsti straumur. Ufsinn gefur sig illa til í slíkum aðstæðum,” segir Eiríkur.


Að sögn skipstjórans var næst haldið í Skerjadjúp.


,,Við fengum dálítið af djúpkarfa en ufsaaflinn var ekki mikill. Í heildina dreifðist aflinn á milli tegunda en við höfum sennilega verið með mest af gullkarfa,” segir Eiríkur Jónsson.


Akurey fer nú í slipp í Reykjavík en slipptakan felur í sér hefðbundið viðhald auk þess sem aðalvélin verður tekin upp.