Skýrsla um veiðigjald staðfestir viðvörunarorð

Ávöxtun fyrirtækja í sjávarútvegi er eðlileg að mati ráðgjafafyrirtækisins Jakobsson Capital. Í skýrslu sem fjallað er um á Innherja og í Morgunblaðinu segir að ávöxtun þeirra þriggja félaga sem skráð eru í kauphöll, Brims, SVN og Ísfélagsins, hafi verið 9,1% að meðaltali síðasta áratug. Jakobsson Capital telur að sökum stærðarhagkvæmni sé rekstrarhagkvæmni hvað mest í greininni hjá ofangreindum félögum. Ef kemur til hækkunar veiðigjalda, sem ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur boðað, mun ávöxtun lækka niður í 7,9% hjá hvað arðbærustu félögunum í greininni segir í skýrslunni og er sú ávöxtun nærri ávöxtunarkröfu ríkisbréfa sem er lág enda eiga ríkisbréf að vera með allra öruggustu fjárfestingakostum. Virði fyrirtækjanna mun lækka um 53 milljarða króna og því eru allar líkur á að verulega dragi úr fjárfestingu í sjávarútvegi sem svo aftur dregur úr hagvexti, segir í skýrslunni.
Skýrsla Jakobsson Capital staðfestir viðvörunarorð Guðmundar Kristjánsson, forstjóra Brims, á uppgjörstilkynningu félagsins 28.febrúar sl. en þar sagði hann m.a.: “Sú staðreynd að afkoma sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi er veik í dag þegar horft er til ávöxtunar á bókfært eigið fé, sem viðskiptalíf um allan heim horfir til, virðist ekki breyta því almenna viðhorfi hér á landi sem birtist í n ær allri umræðu um sjávarútveg að greinin sé takmarkalítil og fyrirhafnarlaus uppspretta skatta sem nýta megi í allt annað en framfarir í greininni. Stjórnmálaflokkar ganga á lagið eins og við sjáum þegar nýjir flokkar taki við völdum í ríkisstjórn að þá minnkar ekkert óvissan í rekstrarumhverfi sjávarútvegsins. Í dag boðar ný ríkisstjórn aukin veiðigjöld og aðkomu samkeppnisyfirvalda að greininni en hún er sú eina í landinu þar sem lög hamla vexti fyrirtækja löngu áður en þau ná stöðu sem ógnar alþjóðlegum og innlendum samkeppnisviðmiðum. Er svo komið að rekstrarumhverfið og framtíðarhorfur í greininni eru þannig að bæði stofnanafjárfestar og almennir fjárfestar sýna sjávarútvegsfyrirtækjum sífellt minni áhugi enda ávöxtun meiri í rekstri fasteigna- og verslunarfélaga eða fjármálafyrirtækja. Ég hvet stjórnvöld til að auka fyrirsjáanleika sem er nauðsynlegur í grein eins og sjávarútvegi og einnig í auðlindanýtingu almennt þar sem fjárfestingar eru miklar og fyrirsjáanleiki er nauðsynlegur til að hægt sé að nýta þessar miklu fjárfestingar til að auka velsæld. Með auknum stöðugleika og farsælu samstarfi atvinnulífsins og stjórnvalda skapast forsendur til verðmætasköpunar sem er forsenda velferðar á okkar eyju.”