Ársuppgjör Brims hf. 2024

Góður rekstur og sterk fjárhagsstaða
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri:
”Afkoma Brims var undir væntingum á árinu og er aðal ástæðan að íslensk stjórnvöld leyfðu engar loðnuveiðar. Úthlutun í djúpkarfa var engin í upphafi ársins og einnig hömluðu stjórnvöld Brimi að veiða stóran hluta síns þorskkvóta í Barentshafi á árinu.
Brim telur að undanfarið hafi átt sér stað þróun við stjórnun fiskveiða á Íslandi sem ekki horfir til heilla hvorki fyrir samfélagið í heild, fyrirtækin í sjávarútvegi eða náttúruna. Íslenska fiskveiðistjórnunin byggir á Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er alþjóðlegur samningur um réttindi og skyldur ríkja við nýtingu hafsvæða. Ísland hefur verið aðili að þessum samningi frá upphafi. Í Hafréttarsáttmálanum er lögð rík áhersla á að stjórnvöld í hverju ríki vinni með atvinnugreininni og hagaðilum við mótun á langtíma nýtingarstefnu fiskistofna í sinni lögsögu, eins og áréttað er í siðareglum FAO um ábyrgð í fiskimálum frá 1995.
Að mati okkar í Brimi hefur samtal stjórnvalda við starfsfólk og stjórnendur í sjávarútvegsfyrirtækjum að miklu leyti fallið niður. Hafrannsóknarstofnun er einn hagaðila og er undirstofnun stjórnvalda og þar með ráðherra og á síðasta áratug hefur ráðherra sjávarútvegs æ oftar ákveðið að fara aðeins að tilmælum sinnar undirstofnunar varðandi nýtingu fiskistofna en ekki átt samtal við aðra hagaðila eða tekið tillit til annara sjónarmiða. Síður hefur verið hlustað á eða haft samstarf við forustufólk sjávarútvegsfyrirtækjanna eða skipstjóra fiskiskipanna um þessar mikilvægu ákvarðanir. Þessi þróun er ekki í samræmi við siðareglur FAO um ábyrgð í fiskimálum og er að mati okkar í Brimi áhyggjuefni fyrir íslenska þjóð.
Þá hefur að mati okkar í Brimi dregið úr samtali milli Alþingis og starfsfólks sjávarútvegsráðuneytisins við fólk í sjávarútvegi um breytingar á lögum eða útfærslur á nýjum lögum og reglugerðum. Það er óheppilegt því mikilvægt er að reynsla og þekking á undirstöðum greinarinnar endurspegli ný lög og nýjar reglur. Það er mín von að nýjir alþingismenn og ráðherrar breyti þessari þróun og taki upp faglegt og opið samtal við fólk í sjávarútvegi og ákvarðanir verði teknar með gagnsæum og faglegum hætti.
Þó afkoman hjá Brimi hafi ekki verið ásættanleg á síðasta ári sýnir uppgjörið að rekstur og efnahagur félagsins er traustur. Ánægjulegt er að sjá hvað fjárfestingar Brims á undanförnum árum í dóttur- og hlutdeildarfélögum styðja núna vel við félagið. Eignir félagsins eru 143,3 milljarðar króna og þar af bókfært eigið fé 70,3 milljarðar.
Sú staðreynd að afkoma sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi er veik í dag þegar horft er til ávöxtunar á bókfært eigið fé, sem viðskiptalíf um allan heim horfir til, virðist ekki breyta því almenna viðhorfi hér á landi sem birtist í nær allri umræðu um sjávarútveg að greinin sé takmarkalítil og fyrirhafnarlaus uppspretta skatta sem nýta megi í allt annað en framfarir í greininni. Stjórnmálaflokkar ganga á lagið eins og við sjáum þegar nýjir flokkar taki við völdum í ríkisstjórn að þá minnkar ekkert óvissan í rekstrarumhverfi sjávarútvegsins. Í dag boðar ný ríkisstjórn aukin veiðigjöld og aðkomu samkeppnisyfirvalda að greininni en hún er sú eina í landinu þar sem lög hamla vexti fyrirtækja löngu áður en þau ná stöðu sem ógnar alþjóðlegum og innlendum samkeppnisviðmiðum. Er svo komið að rekstrarumhverfið og framtíðarhorfur í greininni eru þannig að bæði stofnanafjárfestar og almennir fjárfestar sýna sjávarútvegsfyrirtækjum sífellt minni áhugi enda ávöxtun meiri í rekstri fasteigna- og verslunarfélaga eða fjármálafyrirtækja.
Ég hvet stjórnvöld til að auka fyrirsjáanleika sem er nauðsynlegur í grein eins og sjávarútvegi og einnig í auðlindanýtingu almennt þar sem fjárfestingar eru miklar og fyrirsjáanleiki er nauðsynlegur til að hægt sé að nýta þessar miklu fjárfestingar til að auka velsæld. Með auknum stöðugleika og farsælu samstarfi atvinnulífsins og stjórnvalda skapast forsendur til verðmætasköpunar sem er forsenda velferðar á okkar eyju.
Góður rekstur og sterk fjárhagsstaða
Fjórði ársfjórðungur (4F)
· Rekstrartekjur á 4F 2024 voru 105,2 m€ samanborið við 101,7 m€ á 4F 2023.
· EBITDA nam 18,3 m€ á 4F samanborið við 18,5 m€ á sama tímabili 2023.
· Hagnaður á 4F var 16,0 m€ samanborið við 8,8 m€ á 4F 2023
Árið 2024
· Rekstrartekjur ársins 2024 voru 389,4 m€ samanborið við 437,2 m€ árið 2023.
· EBITDA ársins 2024 var 65,3 m€ (16,8%) en var 97,2 m€ (22,2%) árið 2023.
· Hagnaður ársins 2024 var 40,5 m€, en var 62,9 m€ árið áður.
· Hagnaður á hlut var 0,021 € en var 0,033 € árið 2023.
· Heildareignir í árslok voru 996,0 m€ samanborið við 949,7 m€ í árslok 2023.
· Eiginfjárhlutfall var í lok árs 49% og eigið fé samtals 488,9 m€.
Helstu atriði úr starfseminni
· Heildar botnfiskveiði jókst milli ára og var 48.092 tonn á móti 43.545 tonnum árið 2023. Þar af var afli togara 46.242 tonn, en árið 2023 var hann 41.779 tonn. Afli á úthaldsdag var 26,6 tonn en árið 2023 var hann 27,2, tonn. Afli línubátsins Kristjáns var 1.850 tonn á árinu, en 1.767 tonn árið 2023. Um mitt ár var frystitogarinn Þerney keyptur og fór hann í sína fyrstu veiðiferð í lok júní. Örfirisey var seld og afhent nýjum eigendum í lok júlí. Helga María stoppaði í fjórar vikur til að sinna hefðbundnum viðhaldsverkefnum. Í heildina voru unnin tæp 23.971 tonn í landvinnslum félagsins samanborið við 25.475 tonn árið á undan. Töluvert minna var unnið af ufsa og karfa en meira af þorski. Norðurgarður vann úr 20.627 tonnum af þorski, ufsa, ýsu og karfa. Kambur vann úr 3.344 tonnum af þorski og ýsu.
· Engin loðnuvertíð og dræm makrílveiði settu stóran svip á rekstur uppsjávarsviðs árið 2024. Heildarafli uppsjávarskipa var 96 þúsund tonn á móti 152 þúsund tonnum árið 2023 þar af var samdráttur í loðnu 48 þúsund tonn og makríl 9.500 tonn, en veiðar gengu vel á síld og kolmunna. Vinnsla gekk vel og framleiðslugæði voru góð. Verð á frystum makríl og síld hækkaði og sala gekk vel. Verð á bæði mjöli og lýsi voru mjög góð þrátt fyrir að verð á lýsi hafi lækkað á seinni hluta ársins.
Rekstur
Rekstrartekjur Brims hf. árið 2024 námu 389,4m€ samanborið við 437,2 m€ árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 65,3 m€ eða 16,8% af rekstrartekjum, en var 97,2 m€ eða 22,2% árið áður. Nettó fjármagnsgjöld voru 17,6 m€ samanborið við 14,3 m€ árið áður.
Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 14,5 m€, en voru 9,7 m€ árið áður. Munar þar mestu um að áhrif danska félagsins Polar Seafood Denmark A/S eru tekin inn allt árið en voru aðeins inni seinni hluta ársins 2023. Einnig seldi hlutdeildarfélagið Þórsberg ehf. aflaheimildir sem höfðu áhrif til hækkunar á tekjum af hlutdeildarfélögum. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 46,1 m€, samanborið 75,0 m€ árið áður. Gjaldfærður tekjuskattur nam 5,6 m€, en var 12,1 m€ árið áður. Hagnaður ársins varð því 40,5 m€ en var 62,9 m€ árið áður.
Meðalfjöldi ársverka árið 2024 var 661 en var 694 árið 2023. Laun og launatengd gjöld námu samtals 87,6 m€, samanborið við 94,7 m€ árið áður (13,1 milljarðar króna á meðalgengi ársins samanborið við 14,1 milljarða árið áður).
LYKILTÖLUR REKSTRAR | |||||||||||
EUR '000 |
|
4F 2024 |
|
4F 2023 |
|
|
2024 |
|
2023 |
| |
| |||||||||||
Seldar vörur |
105.216 |
101.746 |
|
389.365 |
437.215 | ||||||
Kostnaðarverð seldra vara |
(87.053) |
(82.466) |
|
(323.708) |
(335.396) | ||||||
Vergur hagnaður |
|
18.163 |
|
19.280 |
|
|
65.657 |
|
101.819 |
| |
| |||||||||||
Aðrar tekjur |
25 |
74 |
|
3.400 |
369 | ||||||
Útflutningskostnaður |
(1.755) |
(2.466) |
|
(7.434) |
(10.031) | ||||||
Annar rekstrarkostnaður |
(3.268) |
(3.231) |
|
(12.382) |
(12.599) | ||||||
Rekstrarhagnaður |
|
13.165 |
|
13.657 |
|
|
49.241 |
|
79.558 |
| |
| |||||||||||
Fjáreignatekjur |
1.844 |
1.763 |
|
4.011 |
4.663 | ||||||
Fjármagnsgjöld |
(5.968) |
(5.668) |
|
(23.178) |
(19.330) | ||||||
Gengismunur |
689 |
(158) |
|
1.584 |
399 | ||||||
Áhrif hlutdeildarfélaga |
8.163 |
1.523 |
|
14.452 |
9.747 | ||||||
Hagnaður fyrir tekjuskatt |
17.893 |
|
11.117 |
|
|
46.110 |
|
75.037 |
| ||
Tekjuskattur |
(1.856) |
(2.268) |
|
(5.595) |
(12.089) | ||||||
Hagnaður tímabilsins |
|
16.037 |
|
8.849 |
|
|
40.515 |
|
62.948 |
| |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
| |
EBITDA |
18.254 |
18.511 |
|
65.304 |
97.224 | ||||||
EBITDA% |
17,3% |
18,2% |
|
16,8% |
22,2% |
Efnahagur
Heildareignir félagsins námu 996,0 m€ árslok 2024. Þar af voru fastafjármunir 821,0 m€ og veltufjármunir 175,0 m€. Fjárhagsstaða félagins er sterk og nam eigið fé 488,9 m€ og var eiginfjárhlutfall 49,0%, en var 50,0% í lok árs 2023. Heildarskuldir félagsins í árslok 2024 voru 507,1 m€.
Sjóðstreymi
Handbært fé frá rekstri nam 46,1 m€ árið 2024, en var 46,4 m€ árið áður. Fjárfestingarhreyfingar voru 39,5 m€. Fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 11,4 m€. Handbært fé hækkaði því um 18,0 m€ á tímabilinu og var í árslok 52,1 m€.
Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna
Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi ársins 2023 (1 evra = 149,31 ísk) voru tekjur 58,1 milljarður króna, EBITDA 9,8 milljarðar og hagnaður 6,0 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á lokagengi ársins 2024 (1 evra = 143,9 ísk) voru eignir samtals 143,3 milljarðar króna, skuldir 73,0 milljarðar og eigið fé 70,3 milljarðar.
Aðalfundur
Aðalfundur Brims hf. verður haldinn fimmtudaginn 20. mars 2025 klukkan 16:30. Nánari upplýsingar verða veittar á heimasíðu félagsins www.brim.is.
Tillaga stjórnar á aðalfundi um arðgreiðslu
Samkvæmt stefnu félagsins sem kynnt var í skráningarlýsingu félagsins árið 2014 leggur stjórn félagsins til að arðgreiðsla á árinu 2025 vegna rekstrarársins 2024 verði 1,5 kr. á hlut, eða 2.888 millj. kr. (um 20,1 millj. evra á lokagengi ársins 2024), eða 2,0% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2024. Arðurinn verði greiddur 30. apríl 2025. Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 21. mars 2025 og arðleysisdagur því 22. mars 2025.
Arðsréttindadagur er 25. mars 2025. Arður greiðist þeim sem skráðir eru í hlutaskrá félagsins í lok arðsréttindadags.
Samþykkt ársreiknings
Ársreikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Brims hf. 27. febrúar 2025. Ársreikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS – International Financial Reporting Standards) og hefur verið endurskoðaður af endurskoðendum félagsins.
Kynningarfundur þann 27. febrúar 2025
Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn fimmtudaginn 27. febrúar klukkan 16:30 að Norðurgarði 1, þar mun Guðmundur Kristjánsson forstjóri félagsins kynna uppgjörið. Fundurinn verður einnig rafrænn og hægt verður að fylgjanst með fundinum á www.brim.is/streymi. Velkomið er að senda spurningar fyrir fundinn eða á meðan fundi stendur á netfangið fjarfestatengsl@brim.is. Spurningum verður svarað í lok fundar.
Brim hf.
Brim er öflugt sjávarútvegsfyrirtæki sem starfar í sátt við samfélagið og umhverfið. Við stuðlum að verðmætasköpun með vöruþróun, tæknilausnum og öflugu starfsfólki. Við tryggjum með ábyrgum veiðum og vinnslu, þar sem áhersla er á sjálfbærni og nýsköpun, að sjávarútvegur verði áfram burðarstólpi í íslensku samfélagi. Við leitum allra leiða til að lágmarka áhrif starfseminnar á umhverfið hvort sem er á sjó eða í landi.
Fjárhagsdagatal
Aðalfundur 20. mars 2025
Arðgreiðsludagur 30. apríl 2025
Fyrsti ársfjórðungur 27. maí 2025
Annar ársfjórðungur 28. ágúst 2025
Þriðji ársfjórðungur 20 . nóvember 2025
Fjórði ársfjórðungur 26. febrúar 2026
Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Kristjánsson forstjóri, sími 550-1000.