Brim tekur þátt í alþjóðlegu rannsóknarverkefni á sviði orkuskipta
STORM verkefnið (System Transition to Renewable Marine Fuels in the Nordics from a Supply Chain Perspective) er alþjóðlegt rannsóknarverkefni og er að hluta fjármagnað af Nordic Energy Research. En í heildina er verkefnið unnið og fjármagnað af fimm rannsóknarstofnunum og átta hagsmuna aðilum, af þeim eru íslenskir aðilar verkefnisins, Háskóli Íslands, Brim, Faxaflóahafnir og Eimskip og erlendir þátttakendur koma frá Svíþjóð og Færeyjum. Allir eru þeir með mismunandi hagsmuni af verkefninu. Áætlaður kostnaður verkefnisins er 944.000 evrur.
Markmið STORM verkefnisins er að styðja við orkuskipti í haftengdri starfsemi, þ.m.t. sjávarútvegi og sjóflutningum. Nálgun verkefnisins er heildræn en skoða á orkuskipti í þessum geirum í ljósi orkuskipta í öðrum geirum og framleiðslu á öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti. Verkefnið mun leggja mat á möguleika á innlendri framleiðslu eldsneytis sem og aukna skilvirkni í notkun orku í haftengdri starfsemi og bera saman möguleika, með áherslu á hagrænar og umhverfislegar víddir. Hindranir og hvatar til breytinga verða greindir og bent á nauðsynlegar aðgerðir stjórnvalda til að raungera orkuskipti í haftengdri starfsemi. Verkefnið hófst seint á árinu 2024 og er því nýbyrjað en það er áætlað að standa yfir fram að 2027.