Hvernig vinnum við aflann?
Vinnsluaðferðir fyrir botnfisktegundir og uppsjávartegundir eru ólíkar. Botnfisktegundir eru unnar í landi og á sjó, í landi er lögð áhersla á framleiðslu flaka og flakastykkja og eru afurðirnar bæði frystar og ferskar á meðan fiskur sem unnið er á sjó er frystur. Uppsjávarvinnsla er misjöfn eftir tegundi en allt er unnið í landi en eftir tegund og árstíma þá geta afurðirnar verið frystar eða unnar í mjöl og lýsi.
Vinnsluaðferðir
Sjófrysting
Frystitogarar til botnfiskveiða vinna eigin afla um borð. Frystitogararnir vinna ávallt úr nýveiddum fiski og dæmi um fisktegundir sem eru unnar um borð eru; þorskur, karfi, ufsi, grálúða, ýsa og gulllax auk ýmissa annarra fisktegunda. Sama ferli á sér stað um borð í frystitogara og þegar fiskurinn er unninn á landi en eins getur fiskurinn verið seldur heilfrystur.
Landvinnsla
Bæði ísfisktogarar og uppsjávarskipin veiða afla til landvinnslu. Ísfiskitogararnir veiða botnfisk sem unninn er í botnfiskvinnslunni við Norðurgarð. Uppsjávarskipin veiða uppsjávartegundir sem bæði geta verið unnar til manneldis og er svo frystar en einnig er unnið mjöl og lýsi.
Botnfiskvinnsla
Í botnfiskvinnslu Brim við Norðurgarð í Reykjavík er lögð áhersla á framleiðslu flaka og flakastykkja úr þorski, karfa og ufsa. Fiskurinn er stærðaflokkaður, hausaður, flakaður, roðflettur og snyrtur áður en hann er skorinn í stykki eftir óskum kaupanda. Afurðirnar eru bæði seldar ferskar og frosnar allan ársins hring. Ferskar afurðir eru sendar samdægurs með flugi eða kæligámum á erlenda markaði en frystu afurðirnar eru fluttar út í frystigámum eða með brettaskipum.
Frysting uppsjávarafurða
Brim rekur afkastamikla vinnslu á Vopnafirði sem er sérhæfð til vinnslu á uppsjávarfiski: loðnu, síld, kolmunna og makríl. Loðnan er heilfryst eða unnin úr henni hrogn. Makríll er ýmist heilfrystur eða hausaður og slógdreginn. Síldin er ýmist heilfryst eða unnin úr henni samflök eða flök.
Vinnslan er vertíðarbundin. Vinnsla loðnu og loðnuhrogna er frá janúar til mars, vinnsla á makríl og norsk-íslenskri síld frá júlí til september og vinnsla á íslenskri síld frá október til ársloka.
Einnig starfsrækt vinnsla á Akranesi þar sem unnin eru loðnuhrogn á loðnuverðtíðinni.
Mjöl - og lýsisvinnsla
Á Vopnafirði er starfrækt fiskmjölsverksmiðja sem notar rafmagn frá endurnýtanlegum orkuauðlindum. Þar er einnig efnarannsóknastofa þar sem framkvæmdar eru mælingar á ferskleika, fituinnihaldi og fleiru við löndun og er fiskimjöl og lýsi einnig efnagreint og metið í gæðaflokka. Verksmiðjan vinnur aðallega úr fráflokki, loðnuhrati og afskurði síldar og makríls frá frystihúsi Brims á Vopnafirði auk kolmunna. Meginhluti afurðanna er notaður í fóðurgerð en verksmiðjan er einnig vottuð til framleiðslu á lýsi til manneldis.
Á Akranesi er starfrækt fiskmjölsverksmiðja sem vinnur mjöl úr loðnu- og botnfiskhrati.
Frekari vinnsla og hliðarafurðir
Vignir G. Jónsson
Vigni G. Jónsson er dótturfyrirtæki Brims sem staðsett er á Akranesi. Helstu framleiðsluvörur Vignis G. Jónssonar eru ýmsar afurðir unnar úr hrognum. Þau hrogn sem notuð eru við framleiðslu í fyrirtækinu eru aðallega hrogn úr grásleppu, loðnu, flugfiski, þorski, ýsu, löngu, ufsa og laxi. Þróunarvinna er stór þáttur í rekstrinum og hefur fyrirtækið góða aðstöðu til fullvinnslu. Helstu markaðir eru í Evrópu og Bandaríkjunum.
Marine Collagen
Brim á 25% hlut í Marine Collagen í Grindavík. Félagið framleiðir gelatín sem notað er við matvælaframleiðslu en framleiðslan er enn á tilraunastigi. Þegar að full framleiðsla næst verður einnig framleitt kollagen. Bæði gelatínið og kollagenið er unnið úr fiskroði sem Marine Collagen kaupir meðal annars frá Brimi.
Botnfiskvinnsla Norðurgarði
Við Norðurgarð í Reykjavík er ein fullkomnasta botnfiskvinnsla í heimi. Þar er unninn þorskur, karfi og ufsi sem ísfisktogarar Brims koma með að bryggjukantinum við vinnsluna. Frá því að fiskurinn fer á vinnslulínuna líða innan við 40 mínútur þar til fiskurinn er tilbúinn til útflutnings.